„Við erum ekki að fara að brotna“

Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur.
Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kristrún Ýr Holm var ekki beint hress eftir slæmt 4:0-tap Keflavíkur gegn Þór/KA í kvöld. Liðin mættust í Boganum á Akureyri og má segja að Þór/KA hafi unnið mjög öruggan og verðskuldaðan sigur. Keflavík er án stiga eftir fimm fyrstu umferðirnar en iðið á nóg inni þrátt fyrir skellinn í dag.

„Þetta var ekki góður leikur hjá okkur. Að mínu mati er þetta versti leikurinn okkar á tímabilinu“ sagði Kristrún Ýr. „Við höfum verið að ná góðum frammistöðum þótt úrslitin hafi ekki verið að falla með okkur. Þetta var alls ekki gott.“

Þið voruð þó inni í leiknum lengi vel, staðan 1:0 og þið fenguð alltaf ykkar sóknir. Svo kom bara kafli sem kláraði leikinn og þið virtust missa trúna.

„Það hefur verið smá vandamál hjá okkur. Við verðum að læra af þessu mistökum. Við gáfum þeim full ódýr mörk í kjölfarið á öðru markinu þeirra. Þetta er dýrt.“

Liðið er þó ekki að baki dottið og hefur fyrirliðinn fulla trú á að liðið rétti sinn hlut í næstu leikjum. „Við vitum alveg hvað við getum og þetta fer að detta hjá okkur og rúlla betur. Þetta verður bara að fara að detta núna. Við stillum bara okkar strengi og einbeitum okkur þá að næsta leik. Við erum ekki að fara að brotna. Það er ekki séns,“ sagði Kristrún Ýr að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert