Heldur Breiðablik genginu góða áfram?

Breiðablik hefur farið frábærlega af stað.
Breiðablik hefur farið frábærlega af stað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir leikir fara fram í 5. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld er Fylkir tekur á móti Breiðabliki í Árbænum og Þróttur úr Reykjavík fær Víking úr Reykjavík í heimsókn. 

Breiðablik er í öðru sæti deildarinnar með fullt hús stiga eða 12 eftir fjóra leiki. Íslandsmeistarar Vals eru hins vegar í toppsætinu með 15 stig, einnig fullt hús eftir sigur á Tindastóli í gær.

Með sigri í kvöld kæmist Breiðablik aftur í toppsæti deildarinnar vegna markatölu. 

Fylkisliðið er nýliði í deildinni og situr í sjöunda sæti með fimm stig. Með sigri í kvöld kæmust Fylkiskonur í fjórða sæti deildarinnar. 

Þróttarar þurfa sigur

Þróttur hefur valdið miklum vonbrigðum á tímabilinu en liðið er í næstneðsta sæti með eitt stig af tólf mögulegum. 

Víkingur er í áttunda sæti með fjögur stig en með sigri getur Þróttur jafnað Víkinga að stigum og farið upp fyrir vegna markatölu. 

Skyldi Víkingur vinna kæmist liðið fyrir ofan FH og Stjörnuna og mögulega einnig Fylki ef Árbæingar vinna ekki Breiðablik. 

Báðir leikir verða í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert