„Það er mikill fengur að hafa þjálfara eins og Óla í kvennaboltanum,“ sagði John Andrews, þjálfari Víkings eftir 1:0 sigur liðsins gegn Þrótti í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Vísaði hann þar til Ólafs Kristjánssonar, þjálfara Þróttar.
„Gæði leiksins voru frábær, Þróttur gaf okkur hörkuleik og við þurftum að hafa fyrir þessum sigri,“ sagði John í samtali við mbl.is eftir leik.
„Við vissum hverju við áttum von á og það raungerðist og við þurftum að standa í lappirnar og berjast, sem við gerðum og við skoruðum frábært mark,“ hélt hann áfram.
Katla Sveinbjörnsdóttir, markmaður Víkings, var aftur á bekknum í dag en hún meiddist í leik liðsins gegn Val og var ekki með í síðustu umferð. Birta Guðlaugsdóttir stóð vaktina í rammanum í dag og stóð sig vel.
„Katla er leikhæf og hún var frábær á æfingu í gær, mikil samkeppni á milli hennar og Birtu um stöðu í liðinu, tveir frábærir markverðir,“ sagði John.
Víkingur á tvo stóra útileiki framundan, fyrst Aftureldingu í bikarnum og síðan FH í Bestu deildinni. John er brattur fyrir báða.
„Ég sá seinni hálfleikinn hjá FH í leik þeirra gegn Stjörnunni í gær og þær voru frábærar en fyrst er bikarinn og það verður spennandi leikur án efa,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.