Sterkur sigur KR-inga í Kaplakrika

Luke Rae úr KR eltir Kjartan Kára Halldórsson úr FH …
Luke Rae úr KR eltir Kjartan Kára Halldórsson úr FH í kvöld. mbl.is/Eyþór

FH tók á móti KR í sjöundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag og lauk leiknum með sigri KR, 2:1. Leikið var á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði.

Leikurinn í dag fór mjög rólega af stað og gerðist lítið markvert fyrstu mínúturnar. Fyrsta færi leiksins sem telja mætti kom á 24. mínútu þegar Björn Daníel Sverrisson fékk gott færi utan teigs en lélegt skot fer framhjá.

Á 25. mínútu komst Theodór Elmar Bjarnason í álitlega stöðu þegar hann keyrði inn í teig FH eftir skyndisókn en í stað þess að skjóta ákvað hann að leika listir sínar með boltann og ekkert varð úr tækifærinu.

Á 29. mínútu leiksins fékk Aron Sigurðarson tækifæri þegar hann skaut föstu skoti utan teigs en Sindri Kristinn Ólafsson markvörður FH varði í horn.

Á 34 .mínutu leiksins gerðist umdeilt atvik þegar Sindri Kristinn lendir í samstuði inni í teig við Finn Tómas Pálmason og víti dæmt. Mjög harður dómur og þar sem hvorugur þeirra kom við boltann og einungis samstuð tveggja leikmanna. Undirritaður telur að hér hafi verið rangur dómur. Sindri Kristinn fékk að auki gult spjald.

Aron Sigurðarson fór á vítapunktinn og skoraði af öruggi. Staðan 1:0 fyrir KR. Eftir þetta var eins og KR-ingar efldust og sóttu þeir án afláts það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.

Þegar 4 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fyrri hálfleiks tvöfaldaði KR forystuna. Var þar að verki fyrirliðinn Theodór Elmar Bjarnaon eftir sendingu frá Luke Rae en boltinn hafði viðkomu í Ísaki Óla. Staðan 2:0 fyrir KR, sem voru hálfleikstölur.

Síðari hálfleikur byrjaði með sannkölluðu dauðafæri þegar Benoný Breki Andrésson komst aleinn inn fyrir vörn FH en gerði mistök í síðustu snertingunni og missti boltann of langt frá sér. Leikmenn FH stálheppnir að lenda ekki þremur mörkum undir í byrjun síðari hálfleiks.

Á 56. mínútu leiksins skoraði Logi Hrafn Róbertsson mark fyrir FH en Helgi Mikael dómari dæmdi markið af þar sem leikmaður FH átti að hafa brotið á Guy Smit markverði KR.

Þegar 62 mínútur voru liðnar af leiknum fengu leikmenn FH fimm hornspyrnur í röð. Eftir þá fimmtu náði FH að spila á milli sín sem endaði með því að Kjartan Kári Halldórsson gaf fyrirgjöf á Úlf Ágúst Björnsson sem skallaði boltann í bláhornið. Gjörsamlega óverjandi fyrir Guy Smit í marki KR. Staðan orðin 2:1 fyrir KR. Markið skráðist á 63 mínútu.

Á 73. mínútu fengu FH-ingar sannarlega tækifæri til að jafna leikinn þegar Böðvar Böðvarsson gaf stungusendingu á Sigurð Bjart Hallsson sem gaf boltann fyrir markið en þar var enginn fyrir opnu markinu til að koma boltanum yfir línuna.

Eftir þetta sótti lið FH án afláts og var alltaf mjög nálægt því að skora.

Á 81. mínútu leiksins fékk Ægir Jarl Jónasson fínt skotfæri rétt fyrir utan teig FH en skot hans hátt yfir.  Á 82. mínútu slapp Sigurður Bjartur Hallsson inn fyrir vörn KR en skot hans varið af Guy Smit úr þröngu færi.

Lið KR reyndi að gulltryggja sigurinn í leiknum á 86 .mínútu þegar Alex Þór Hauksson átti gott skot utan teigs en boltinn fór rétt yfir markið. FH hélt áfram að reyna að ná jöfnunarmarkinu en allt kom fyrir ekki og lauk leiknum með 2:1 sigri KR.

Eftir leikinn er lið FH með 12 stig og KR er með 10 stig en bæði lið hafa leikið 7 leiki.

FH fer á Hlíðarenda í næstu umferð og mæta þar Valsmönnum á meðan KR tekur á móti Vestra í Frostaskjóli.  

FH 1:2 KR opna loka
90. mín. AMK 3 mínútum bætt við leiktímann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert