Fram og Afturelding með sigra

Alda Ólafsdóttir skoraði bæði mörk Fram í kvöld.
Alda Ólafsdóttir skoraði bæði mörk Fram í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram endurheimti toppsæti 1. deildar kvenna í knattspyrnu með því að leggja ÍA að velli, 2:0, í þriðju umferð deildarinnar í Akraneshöllinni í kvöld. Afturelding lagði Grindavík, 1:0, í Mosfellsbænum.

Fram og Afturelding eru jöfn að stigum í efstu tveimur sætunum með sjö stig en Framarar eru með töluvert betri markatölu.

Bæði Fram og Afturelding eru taplaus líkt og Grótta, Selfoss og FHL í sætunum fyrir neðan.

Alda Ólafsdóttir reyndist hetja Fram á Akranesi í kvöld en hún skoraði bæði mörk gestanna úr Úlfarsárdal.

Er hún búin að skora fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum liðsins á tímabilinu og er jafnmarkahæst ásamt liðsfélaga sínum Murielle Tiernan.

Í Mosfellsbæ skoraði Harpa Karen Antonsdóttir sigurmark Aftureldingar stundarfjórðungi fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert