Valdi Ísland fram yfir Danmörku: „Erfið ákvörðun“

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, fyrir miðju, hefur skorað grimmt fyrir Nordsjælland.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, fyrir miðju, hefur skorað grimmt fyrir Nordsjælland. Ljósmynd/Nordsjælland

Knattspyrnukonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, 19 ára sóknarmaður Nordsjælland, er í íslenska landsliðshópnum í fyrsta sinn fyrir tvo leiki gegn Austurríki í undankeppni EM 2025 í lok maí og byrjun júní. Emilía á íslenskan föður og danska móður og hefur á undanförnum árum skorað grimmt fyrir yngri landslið Danmerkur.

Emilía hefur einnig raðað inn mörkum fyrir Nordsjælland á tímabilinu. Hún er markahæst í dönsku úrvalsdeildinni með tíu mörk í 16 leikjum. Nordsjælland er í toppsæti deildarinnar og er komið í bikarúrslitaleik Danmerkur.

Nýtti tímann vel

Þar sem Emilía hefur síðastliðin ár búið í Danmörku og leikið með Nordsjælland og yngri landsliðum Danmerkur var óttast að hún myndi velja að spila fyrir danska A-landsliðið þegar fram liðu stundir. Hún hefur hins vegar valið að spila fyrir Íslands hönd.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Emilía að ákvörðunin hefði verið erfið en hún hefði nýtt tímann vel til að komast að henni. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari gaf henni sinn tíma til að hugsa málið. Á blaðamannafundi eftir að hópurinn var valinn sagði Þorsteinn einmitt að hann hefði ávallt verið bjartsýnn á að hún vildi spila fyrir Ísland.

„Þetta hefur verið ferli. Ég er búin að vera í sambandi við Steina í rúmt ár. Við töluðum mjög opinskátt um stöðuna á mismunandi tímapunktum, hann hefur sýnt mér mjög mikinn stuðning og gefið mér þann tíma sem ég hef þurft. Þetta er ekki ákvörðun sem maður tekur á einu kvöldi. Hann sýndi því góðan skilning og hefur hjálpað mér gríðarlega mikið.

Svo var þetta skiptið sem ég taldi það passa að segja já. Ég hef átt æðislegan tíma í dönsku landsliðstreyjunni. Minningarnar eru góðar og ég spilaði marga skemmtilega leiki.“

Viðtalið við Emilíu í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert