Kominn með fimm í tveimur leikjum - fyrsti sigur Þróttar

Jakob Gunnar Sigurðsson fagnar fyrra marki sínu fyrir Völsung í …
Jakob Gunnar Sigurðsson fagnar fyrra marki sínu fyrir Völsung í kvöld en Javon Sample markvörður KF er vonsvikinn á svip. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar Sigurðsson var áfram á skotskónum með Völsungi í 2. deildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið vann KF frá Fjallabyggð, 4:1, í fjórðu umferð deildarinnar á Húsavík.

Jakob, sem skoraði þrennu gegn Reyni í Sandgerði í þriðju umferðinni, skoraði tvö markanna, annað og þriðja, en fyrsta markið skoraði Gestur Aron Sörensson með skalla á 22. mínútu. 

Jakob Héðinn Róbertsson kom Völsungi í 4:0, nýkominn inn á sem varamaður, en Jonas Benedikt Schmalbach minnkaði muninn fyrir KF undir lok leiksins.

Í Vogum unnu heimamenn í Þrótti sinn fyrsta leik á tímabilinu en þeir sigruðu KFG úr Garðabæ, 1:0. Guðni Sigþórsson skoraði sigurmarkið um miðjan síðari hálfleik.

Völsungur er kominn með 6 stig í fimmta sæti, Þróttur V. er með 4 stig í áttunda sæti, KFG er með 3 stig í 10. sæti en KF er í tólfta og neðsta sæti eftir að hafa tapað fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni.

Hinir fjórir leikirnir í fjórðu umferðinni fara fram á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert