Hrikalega vonsvikin og sár

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir er fyrirliði Þróttar.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir er fyrirliði Þróttar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Það er mjög erfitt að koma því í orð, ég er hrikalega vonsvikin og sár eftir leikinn," sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar í Reykjavík eftir 1:0 tap liðsins gegn Keflavík suður með sjó í Bestu deild kvenna í dag.

„Mér fannst við lélegar í fyrri hálfleik eins og við þorðum ekki að gera neitt. Svo komum við aðeins sterkari í seinni hálfleik en mark Keflavíkur drepur okkur og við vorum ekki nógu beittar í teignum. Þetta var í hreinskilni sagt mjög bragðdauft og alls ekki nógu gott hjá okkur," sagði Álfhildur við mbl.is.

Bæði lið voru í fallsæti, Keflavík með ekkert stig og Þróttur með eitt, og nokkuð ljóst að bæði lið þurftu á sigri að halda í dag til að byrja mótið.

Eftir erfiða byrjun beggja liða í deildinni þá unnu bæði lið sína sigra í bikarnum á dögunum. Þróttarar gjörsigruðu Fylki, 5:0 á heimavelli og það gaf jákvæða strauma inní hópinn fyrir komandi leiki í deildinni og sérstaklega fyrir þennan mikilvæga leik í botnbaráttunni.

„Þetta var mjög mikilvægur leikur í dag og núna var tækifærið til að byrja að safna stigum. Það gaf okkur smá meðbyr að sigra í bikarnum á dögunum. En þetta var allt annar leikur. Við ætluðum að fara af krafti inní þennan leik og vinna því við þurfum svo sannarlega á stigunum að halda og byrja mótið," sagði Álfhildur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert