Þyrfti að vera mjög spennandi

Jónatan Ingi Jónsson hefur leikið mjög vel með Val undanfarnar …
Jónatan Ingi Jónsson hefur leikið mjög vel með Val undanfarnar vikur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikmaður maímánaðar hjá Morgunblaðinu, Jónatan Ingi Jónsson, var nýkominn af morgunæfingu með Valsliðinu þegar mbl.is náði tali af honum.

Jónatan skoraði þrjú mörk og lagði eitt upp í fjórum leikjum í Bestu deildinni í fótbolta í maí en Valur vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli í maí. Valsmenn eru í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig, sex stigum á eftir toppliði Víkings.

„Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur mánuður. Við unnum alla leikina nema þann síðasta gegn FH. Það er jákvætt og skemmtilegt þegar gengur vel,“ sagði Jónatan við Morgunblaðið er hann var spurður út í mánuðinn sjálfan.

Vilja vera með fleiri stig

Jónatan gekk til liðs við Val í vor frá norska B-deildarliðinu Sogndal. Hann segir tímabilið hafa farið vel af stað en þrátt fyrir að vera í þriðja sæti hefði Valsliðið viljað vera með fleiri stig og nær toppnum.

„Til að byrja með vorum við að læra hver á annan. Þá voru miklar breytingar á stöðum og fleira. Ég lék í vængbakverði þegar það voru meiðsli hjá okkur. Núna þekkjumst við aðeins betur og vonandi heldur þetta svona áfram.

Það er mjög stutt á milli í þessu. Við erum nú sex stigum á eftir Víkingi. Mótið er ekki hálfnað og það er meira en nóg eftir af þessu. Við eigum eftir að spila við flest lið tvisvar og einhver þrisvar. Öll stig eru þó verðmæt og við verðum að halda þessu sem við höfum gert vel í maí áfram í sumar,“ bætti Jónatan Ingi við en aðeins átta af 27 umferðum er lokið í Bestu deildinni. Jónatan segir jafnframt að umhverfið í Val sé mjög fagmannlegt og allt sem hann bjóst við.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og þar er birt úrvalslið maímánaðar í Bestu deild karla

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert