Ég bara ræð ekki við mig

Bjarki Már Elísson fagnar marki í kvöld.
Bjarki Már Elísson fagnar marki í kvöld. Ljósmynd/Kristján Orri

„Heilt yfir þá var þetta bara slakur leikur hjá okkur, við verðum að vera alveg hreinskilnir með það,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir jafntefli liðsins gegn Serbíu, 27:27, í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í dag.

„Við lendum í brekku og Serbarnir eru mjög góðir að spila þennan leik, ég tala nú ekki um þegar að þeir eru tveimur til þremur mörkum yfir. Þetta var ekki nægilega gott en við tökum stigið klárlega úr því sem komið var, það gæti reynst okkur mjög mikilvægt þegar fram líða stundir,“ sagði Bjarki Már.

Ennþá með gæsahúð

Stuðningsmenn íslenska liðsins voru í miklum meirihluta í stúkunni í dag.

„Ég er ennþá með gæsahúð og þetta var fáránlegt. Ég hef aldrei upplifað annað eins, þó ég segi þetta á hverju einasta ári. Ég reyni að gefa til baka með því að fagna þessum mörkum en stundum eyði ég of mikilli orku í að fagna. Ég bara ræð ekki við mig, stemningin hérna er í ruglinu, og ég vil gefa þeim allt sem ég á.“

Lokamínúturnar voru æsispennandi en Sigvaldi Björn Guðjónsson jafnaði metin fyrir Ísland þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.

„Ég ætla ekki að segja að ég hafi verið hættur en ég var orðinn mjög reiður, pirraður og svekktur. Ég var að hugsa um að vinna boltann en svo gerist þetta allt mjög hratt þannig að ég er ennþá að átta mig á þessu eiginlega,“ bætti Bjarki Már við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert