Íslendingar öruggir í milliriðil

Svartfellingar gerðu Íslendingum greiða í kvöld.
Svartfellingar gerðu Íslendingum greiða í kvöld. Ljósmynd/Kristján Orri

Ísland er komið í milliriðil á EM karla í handbolta, þrátt fyrir að eiga enn eftir að spila lokaleik sinn við Ungverjaland í C-riðli. Verður hann flautaður á klukkan 19.30. 

Þetta varð ljóst eftir sigur Svartfjallalands á grönnum sínum í Serbíu, 30:29, í fyrri leik riðilsins í München. Geta hvorki Serbía né Svartfjallaland náð Íslandi á stigum og er ljóst að Ísland og Ungverjaland fara í milliriðil.

Fyrir leik Íslands og Ungverjalands í kvöld er Ungverjaland með 4 stig, Ísland 3, Svartfjallaland 2 og Serbía eitt stig.

Svartfellingar byrjuðu með látum og komust í 4:0 í upphafi leiks. Serbar rönkuðu þá við sér og náðu að minnka muninn. Að lokum munaði einu marki í hálfleik, 15:14.  

Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik en Svartfjallaland var hænuskrefi á undan allan tímann. Serbíu tókst hins vegar að jafna í 28:28 þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

Svartfjallaland skoraði hins vegar tvö af þremur síðustu mörkunum og tryggði sér sætan eins marks sigur.

Branko Vujovic var markahæstur hjá Svartfjallalandi með átta mörk. Lazar Kukic skoraði sjö fyrir Serbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert