Ferguson: City er lítið félag

Alex Ferguson ræðir við fréttamenn í Kína.
Alex Ferguson ræðir við fréttamenn í Kína. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sendi nágrönnum sínum í Manchester City sneið þegar hann ræddi við fréttamenn í Asíuför liðsins í morgun, og sagði m.a. að Emmanuel Adebayor hefði frekar viljað koma til United en til City.

Ferguson var lítt hrifinn af því uppátæki City-manna að setja upp stórt skilti í miðborg Manchester þar sem stóð: „Carlos Tévez, velkominn til Manchester.“ Tévez lék sem kunnugt er með Manchester United undanfarin tvö ár og félagið nýtti sér ekki forkaupsrétt á honum að þeim tíma liðnum.

„Þetta er dæmigert fyrir City, ekki satt? Þetta er lítið félag með minnimáttarkennd. Þeir eru með Manchester United á heilanum og eru fastir í því. Þeir halda að það sé einhver sigur að hafa náð í Carlos Tévez frá Manchester United. Þetta er lélegt," sagði Ferguson.

City keypti á dögunum Emmanuel Adebayor, sóknarmanninn öfluga, af Arsenal fyrir 25 milljónir punda og hefur eytt 55 milljónum punda í viðbót í þá Gareth Barry, Roque Santa Cruz og Carlos Tévez. Ferguson sagði að Adebayor hefði frekar viljað koma til United en til City.

„Þegar svona miklir peningar eru í boði er það alltaf mikið aðdráttarafl. Það er ástæðan fyrir því að þessir menn eru komnir til City. Mér er sagt að um leið og búið var að semja um kaupverðið við City hafi Emmanuel Adebayor eða umboðsmaður hans hringt til okkar, og svo hringt líka í Chelsea. Hann var æstur í að komast til annaðhvort Chelsea eða okkar," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert