Owen með sigurmark í sjö marka Manchesterslag

Anderson og Gareth Barry eigast við í leiknum í dag.
Anderson og Gareth Barry eigast við í leiknum í dag. Reuters

Michael Owen tryggði Manchester United sigur á Manchester City, 4:3, í mögnuðum borgarslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í dag. Owen var nýkominn inná sem varamaður og skoraði sigurmarkið þegar rúmar fimm mínútur voru komnar framyfir leiktímann.

Manchester United er þar með komið uppfyrir Chelsea og á topp úrvalsdeildarinnar með 15 stig. Chelsea á hinsvegar leik gegn Tottenham til góða en hann hefst kl. 15. Manchester City tapaði sínum fyrstu stigum og sígur niðurfyrir Arsenal og í 5. sætið með 12 stig.

Manchester United fékk sannkallaða óskabyrjun því eftir eina mínútu og 50 sekúndur sendi Wayne Rooney boltann í mark City eftir að Patrice Evra komst að endamörkum vinstra megin og renndi boltanum út til hans, 1:0.

Carlos Tévez, fyrrum leikmaður United, átti allan heiðurinn af jöfnunarmarki City á 16. mínútu. Hann hirti boltann af Ben Foster markverði United rétt utan vítateigs vinstra megin, renndi honum út á Gareth Barry sem skoraði með skoti frá vítateig, 1:1.

Engu munaði að Tévez kæmi City yfir á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Hann fékk boltann frá Kolo Toure, sem hafði tekið mikla rispu upp völlinn, og skaut í stöng úr dauðafæri.

United byrjaði líka seinni hálfleikinn vel. Ryan Giggs sendi fyrir mark City frá vinstri á 49. mínútu og Darren Fletcher skoraði með hörkuskalla, 2:1.

City var ekki lengi að svara fyrir sig og enn var Tévez á ferðinni. Á 52. mínútu fékk hann boltann á miðjum vallarhelmingi United og sendi út til vinstri á Craig Bellamy. Walesbúinn skapheiti lék að vítateignum og lét þar vaða, þrumufleygur og efst uppí markhornið fjær. Stórglæsilegt mark, 2:2.

Eftir nær látlausa sókn allan seinni hálfleikinn komst United yfir á 80. mínútu. Það var afar keimklíkt öðru markinu, Ryan Giggs tók nú aukaspyrnu á vinstri kantinum og sendi fyrir markið þar sem Darren Fletcher reis aftur hæst allra og skoraði með skalla, 3:2.

Á 90. mínútu gerði Rio Ferdinand sig sekan um hrikaleg mistök þegar hann missti boltann við miðlínu vallarins. Craig Bellamy brunaði framhjá honum og innfyrir vörn United, nánast að endamörkum vinstra megin þar sem hann laumaði boltanum framhjá Foster markverði úr þröngu færi, 3:3.

Þegar hálf sjötta mínúta var komin framyfir leiktímann laumaði Giggs boltanum inní vítateiginn vinstra megin á Michael Owen, sem kom inná  sem varamaður seint í leiknum, og Owen renndi boltanum framhjá Shay Given og í hornið fjær, 4:3.

United og City eru í 2. og 4. sæti deildarinnar, bæði með 12 stig. City hefur hinsvegar unnið alla fjóra leiki sína til þessa en United hefur unnið fjóra leiki og tapað einum.

Liðin eru þannig skipuð: 

Man Utd: Foster, O'Shea, Ferdinand, Vidic, Evra, Park, Anderson, Fletcher, Giggs, Berbatov, Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Neville, Owen, Carrick, Nani, Jonathan Evans, Valencia.

Man City: Given, Richards, Lescott, Toure, Bridge, Wright-Phillips, Barry, De Jong, Ireland, Bellamy, Tévez.
Varamenn: Taylor, Zabaleta, Garrido, Petrov, Weiss, Ball, Sylvinho.

Wayne Rooney fagnar ásamt John O'Shea og Anderson eftir að …
Wayne Rooney fagnar ásamt John O'Shea og Anderson eftir að hafa komið United yfir í byrjun leiks. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert