Fótboltastjörnur áhyggjufullar vegna óeirðanna

Joey Barton vill auka menntun á Englandi til að koma …
Joey Barton vill auka menntun á Englandi til að koma í veg fyrir óeirðir. Reuters

Nokkrir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni hafa tjáð sig á Twitter um óeirðirnar sem nú standa yfir í Englandi og urðu meðal annars til þess að landsleik Englands og Hollands var aflýst.

Rio Ferdinand, miðvörður Manchester United, segist ánægður með að hætt skuli hafa verið við leikinn enda ríki ófremdarástand í landinu.

„Ég get ekki sofið. Ég fylgist með fréttastöðvunum segja frá óeirðunum. Þetta er brjálæði. Það er eins og þessir krakkar/fólk beri enga virðingu fyrir lögreglunni... kannski herinn myndi fá þá virðingu?“ skrifaði Ferdinand.

„Ég er ekki að segja að ég vilji fá meira ofbeldi, en ef herinn kæmi gæti það fengið þessa krakka/fólk til að hugsa sig tvisvar um. Þessar myndir frá Sky News eru hrikalegar... til hvers er þetta gert? Heimili og eigur fólks brenna - til hvers?“ bætti Ferdinand við.

Wayne Rooney, liðsfélagi hans, tók í svipaðan streng.

„Þessar óeirðir eru klikkaðar. Hvers vegna gerir fólk sínu eigin landi þetta? Eigin borg. Þetta er skammarlegt fyrir landið okkar. Vinsamlegast hættið,“ skrifaði Rooney.

Joey Barton, miðvallarleikmaður Newcastle, sem er nú sjálfur reyndar enginn engill, segir að með betri menntun megi koma í veg fyrir svona lagað.

„Þetta er það sem gerist þegar ómenntuðu fólki leiðist. Skortur á menntun leiðir til ofbeldis... það er ekki verið að mótmæla neinu,“ skrifaði Barton.

Ekki er enn ljóst hvort óeirðirnar munu hafa áhrif á fyrstu umferðina í ensku úrvalsdeildinni sem fara á fram um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert