Johnson: Sviðsetning hjá Evra

Luis Suárez og Patrice Evra takast ekki í hendur.
Luis Suárez og Patrice Evra takast ekki í hendur. AP

Glen Johnson, varnarmaður Liverpool, sakar Patrice Evra, varnarmann Manchester United, um að sviðsetja handabandsatriðið fyrir leik liðanna í síðasta mánuði þegar Luis Suárez mætti með liði Liverpool á Old Trafford.

Í kjölfar málsins fræga á milli Suárez og Evra, þar sem sá fyrrnefndi fékk átta leikja bann fyrir meint kynþáttaníð í garð Frakkans, voru allra augu á þeim þegar liðin heilsuðust fyrir umræddan leik. Þeir tókust ekki í hendur og Suárez hefur alfarið verið kennt um það atvik. Johnson er á öðru máli.

„Evra var klókur á Old Trafford. Ef ég væri að fara að taka í hönd einhvers myndi ég rétta hana fram. En ef höndin er niðri, nánast með síðunni, þá er það vegna þess að ég vil í raun ekki taka í hönd viðkomandi. Luis tók ekki í hönd Evra því höndin var niðri. Hvað átti Luis að gera? Myndir þú heilsa einhverjum sem ekki myndi lyfta hendinni? Auðvitað ekki. En vegna þess að Luis tók ekki í höndina greip Evra í hann þegar hann gekk framhjá, til þess að reyna að undirstrika að hann hefði vilja heilsa honum.

Ég er viss um að Evra var andvaka nóttina fyrir leikinn og hugleiddi hvernig hann ætti að gera þetta. Allt þetta atriði var fáránlegt,“ sagði Johnson í viðtali við Daily Mail.

Hann sagði jafnframt að það hefði ekki verið hugmynd leikmanna Liverpool að klæðast bolum með mynd af Luis Suárez, til stuðnings Úrúgvæjanum, í upphitun fyrir leik gegn Wigan í desember, en það tiltæki þeirra var gagnrýnt harðlega.

„Eins og fjölmiðlarnir eru í dag var það kannski ekki sniðugt að fara í þessa boli. Við fórum í þá til að styðja Luis. Við ætluðum ekki að senda nein skilaboð, þetta var bara fyrir hann. En útkoman var sú að allir töldu að við værum að senda frá okkur skilaboð. Það var ekki meiningin. Hugmyndin kom frá félaginu, en við vorum að sjálfsögðu allir samþykkir. Við veltum ekki fyrir okkur hver viðbrögðin yrðu,“ sagði Johnson.

Paul McGrath, fyrrverandi leikmaður United, gagnrýndi Johnson á Twitter fyrir að taka þátt í uppákomunni með bolina. Johnson telur að með því hafi McGrath sýnt af sér kynþáttafordóma. „Þetta McGrath mál er í raun og veru kynþáttafordómar. Það sem hann sagði er af þeim toga. Hann nefndi bara mig í þessu tilfelli af því ég var eini svarti leikmaðurinn í svona bol. Hann tók mig fyrir vegna litarháttar míns,“ sagði Glen Johnson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert