Reyndist sannspár um gengi Liverpool

Neil Warnock hafði mikla trú á Liverpool í Meistaradeild Evrópu …
Neil Warnock hafði mikla trú á Liverpool í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð. AFP

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, reyndist sannspár um gengi Liverpool á leiktíðinni en í október spáði hann því að Liverpool myndi fara með sigur af hólmi í Meistaradeild Evrópu. Liverpool vann sinn sjötta Evrópumeistaratitil um helgina þegar liðið lagði Tottenham 2:0 í úrslitaleik í Madrid á laugardaginn.

Warnock var spurður að því hvort Liverpool gæti unnið ensku úrvalsdeildina á blaðamannafundi í október. „Ég tel að Liverpool eigi meiri möguleika á því að vinna Meistaradeildina ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Warnock í samtali við enska fjölmiðla. „Liverpool er með magnaða sóknarlínu en ég held að City verði of sterkir í deildinni heima fyrir.“

„Ég hef hins vegar mikla trú á Liverpool í Meistaradeildinni í vetur og tel að þeir muni fara alla leið,“ sagði sannspár Warnock en Liverpool endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir æsispennandi lokasprett með 97 stig, einu stigi minna en Manchester City sem fagnaði sigri í deildinni annað árið í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert