Risastór leikmannaflétta hjá Liverpool?

Kylian Mbappé og Mohamed Salah.
Kylian Mbappé og Mohamed Salah. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa mikinn áhuga á franska sóknarmanninum Kylian Mbappé.

Football London, The Times og vefmiðillinn Daveokop.com greina öll frá þessu en samningur Mbappés, sem er 24 ára gamall, við París SG rennur út næsta sumar og hefur hann ekki viljað skrifa undir nýjan samning í París.

Hann gæti því farið frítt frá félaginu næsta sumar en Mbappé hefur einnig verið sterklega orðaður við stórlið Real Madrid á Spáni.

Kanna alla möguleika

Allir þrír miðlarnir greina frá því að Liverpool sé að kanna allar mögulegar leiðir til þess að landa franska landsliðsfyrirliðanum en til þess  þurfa þeir að öllum líkindum að selja aðra leikmenn.

Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool og einn besti leikmaður liðsins undanfarin ár, hefur verið sterklega orðaður við sádiarabísku meistarana í Al-Ittihad undanfarna mánuði.

Liverpool hafnaði nokkrum tilboðum í Salah í sumar, þar á meðal 200 milljóna punda tilboði Al-Ittihad, en talið er næsta víst að sádiarabíska félagið muni leggja fram nýtt tilboð í Salah næsta sumar.

Gætu þurft að selja Salah

Liverpool gæti því þurft að selja Salah til þess að rýma fyrir komu Mbappés en Salah, sem er 31 árs gamall, kom til Liverpool frá Roma sumarið 2017 fyrir 43 milljónir punda.

Hann á að baki 323 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 198 mörk og lagt upp önnur 84 til viðbótar en hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna sem leikmaður á tíma sínum í Bítlaborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert