​Hver þarf Maradona þegar hann á Archibald?

Terry Venables kunni alla tíð vel við sig í sviðsljósinu.
Terry Venables kunni alla tíð vel við sig í sviðsljósinu. Reuters/Darren Staples

Hann var maðurinn sem seldi Diego Maradona og keypti Steve Archibald í staðinn. Það lítur ekki vel út á ferilskránni. Eða hvað? En til að gæta fyllstu sanngirni þá réð Terry Venables engu um söluna á Maradona; stjórn Barcelona hafði ákveðið að losa sig við hann sumarið 1984 eftir stormasamt samband, áður en enski knattspyrnustjórinn var fenginn að hirðinni. „El Tel“, eins og þeir kalla hann í Katalóníu, sótti hins vegar Archibald og þótti mörgum það slæm skipti. „Hvaða Steve?“ stundu Katalónarnir og fengu sér miðdegislúr, ráðvilltir.

Diego Maradona í herklæðum Börsunga árið 1982.
Diego Maradona í herklæðum Börsunga árið 1982. AFP/Joel Robine


Vorið eftir voru allir búnir að gleyma Maradona enda hafði Venables stýrt Börsungum til sinnar fyrstu meistaratignar í heil ellefu ár – á mælikvarða flestra annarra félaga eru það 111 ár! Og hver sá aðallega um að skora mörkin? Jú, þið eruð með 'etta. Steve karlinn Archibald. 15 mörk gerði „besti knattspyrnumaður heims – án bolta,“ eins og Venables kynnti hann fyrir Katalónum. Og meinti það vel, svo því sé til haga haldið. Hann átti við útsmognar hreyfingar Skotans í framlínunni sem komu honum ítrekað í góða stöðu eða opnuðu fyrir aðra.

Mögulega var Maradona orðinn „besti knattspyrnumaður heims – með bolta“ á þessum tíma en boltinn er greinilega ofmetinn á velli. Í öllu falli varð Archibald spænskur meistari, nokkuð sem Maradona afrekaði aldrei.

Steve Archibald varð spænskur meistari með Barcelona 1985.
Steve Archibald varð spænskur meistari með Barcelona 1985.


Venables vann deildabikarinn 1986 og kom Börsungum alla leið í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða sama vor en laut þar í lægra haldi fyrir Stjörnunni frá Búkarest. Þriðja veturinn var gengi liðsins hins vegar undir væntingum og Venables var látinn taka pokann sinn.

Vel hress og litríkur

Terry Venables, sem lést um liðna helgi, fæddist í Dagenham í Austur-Lundúnum 1943. Hann var einkabarn foreldra sinna en ólst að hluta upp hjá ömmu sinni og afa sem hvöttu hann til íþróttaiðkunar. Venables var snemma sterkur á sparksvellinu og þreytti frumraun sína með Chelsea aðeins 17 ára, sem framliggjandi miðjumaður við hlið annarrar goðsagnar og nágranna úr Dagenham, Jimmy Greaves. 23 ára gekk hann í raðir Tottenham Hotspur og lék síðar með Queens Park Rangers og Crystal Palace, þar sem þjálfaraferillinn hófst um leið og skórnir lentu á hillunni áramótin 1974-75. Venables klæddist landsliðstreyju Englands í tvígang árið 1964.

Fjölmiðlar tóku snemma ástfóstri við Venables enda maðurinn vel hress og litríkur. Í honum bjó líka svolítill gosi; á yngri árum leiddist Venables ekki næturlífið og um tíma reyndi hann meira að segja fyrir sér sem söngvari með hinni geðþekku sveit Joe Loss Band and the Hammersmith Palais. Ætlaði sér að verða einskonar síð-Sinatra. Sá ferill fæddist andvana.

Venables er þó fyrst og fremst minnst sem knattspyrnustjóra enda vann hann afrek víðar en á vettvangi Barcelona. Sá ferill er rifjaður upp í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert