Newcastle upp fyrir Manchester United

Alexander Isak og Luke Shaw í kvöld.
Alexander Isak og Luke Shaw í kvöld. AFP/Andy Buchanan

Newcastle vann góðan sigur á Manchester United, 1:0, í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á St. James' Park í Newcastle í kvöld. 

Newcastle er nú í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig en Manchester United er í sjöunda sætinu með 24 stig. 

Newcastle heimsækir næst Everton á fimmtudaginn kemur en Manchester United fær Chelsea í heimsókn á miðvikudaginn. 

Newcastle mun betri

Heimamenn voru talsvert sterkari í fyrri hálfleik og voru óheppnir að komast ekki yfir. Smá óöryggi gætti í vörn gestanna í byrjun og ákveðið samskiptaleysi átti sér stað milli Diogo Dalot, varnarmanns Manchester United og samherja hans í markinu, Andre Onana, sem hefði getað orsakað mark á 9.mínútu.

Miguel Almiron átti frábært skot sem Andre Onana varði vel á 16.mínútu og svo átti Alexander Isak hörkufæri og skot hans fór af Harry Maguire en boltinn fór rétt framhjá stönginni á 19.mínútu.

Á 38.mínútu fékk Newcastle aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Kieran Trippier tók spyrnuna og átti hörkuskot í slána og niður. Heimamenn virkilega óheppnir. Staðan var markalaus í fyrri hálfleik.

Sigurmark Gordons

Leikmenn Newcastle héldu sama dampi í seinni hálfleik og voru mun sterkari en Rauðu djöflarnir.

Á 55.mínútu fékk Kieran Trippier boltann hægra meginn í teig Man Utd. Hann sendi boltann á fjærstöngina þar sem Anthony Gordon var mættur og skoraði laglegt mark, 1:0. Heimamenn komnir yfir, algjörlega verðskuldað.

Leikurinn jafnaðist aðeins út frá 60.mínútu, þá komust gestirnir meira inní leikinn og náðu að skapa sér betri stöður.

En það voru Newcastle menn sem áttu svo hörkufæri á 78.mínútu.
Hinn 17 ára gamli Lewis Miley átti skot úr teignum sem Aaron Wan-Bissaka, varnarmaður gestanna, "varði" vel og boltinn svo útaf í horn. Þarna var tækifæri til að tvöfalda forystuna.
Heimamenn urðu svo fyrir miklu óláni á 82.mínútu.

Sergio Reguilon, varnarmaður Man Utd, átti skot á lofti í teignum sem stefndi í fjærhornið. Nick Pope, markmaður Newcastle, skutlaði sér á eftir boltanum en Fabian Schar samherji hans setti fótinn út og varði skot en Pope stóð ekki upp aftur.

Leikurinn var stöðvaður og virtist sem Pope hefði meiðst í hnénu en svo þegar hann var studdur útaf af sjúkraþjálfurum þá virtist eins og þeir væru að hlífa meira öxlinni hans.
Gestirnir frá Manchester reyndu svo hvað þeir gátu að jafna leikinn og virtist í fyrstu sem þeim hefði tekist það mínútu fyrir lok venjulegs leiktíma.

Þá fékk Brasilíumaðurinn Antony boltann hægra meginn í teig heimamanna, skaut með vinstri á markið en boltinn hafði viðkomu í Harry Maguire, samherja hans sem var í rangstöðu, og þaðan í markið. Markið stóð réttilega ekki og rangstaða dæmd.

Leikurinn endaði með flottum 1:0 sigri Newcastle sem hoppar upp um tvö sæti, í það fimmta, með 26 stig en Manchester United fer niður í 7.sæti.

Þrátt fyrir öflugan sigur heimamanna þá setja meiðsli Nick Pope svartan blett á kvöldið enda er þess frábæri markvörður algjör lykilmaður í liði norðanmanna og nóg af leikjum framundan.

Gestirnir frá Manchester verða að skoða betur sína frammistöðu enda voru þeir að verjast löngum stundum í leiknum og náðu í raun ekki vopnum sínum fyrr en alveg í blálokin, en þá var um seinan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Newcastle 1:0 Man. United opna loka
90. mín. 9 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert