Ótrúlegur sigur Liverpool í sjö marka leik

Trent Alexander-Arnold fagnar sigurmarkinu.
Trent Alexander-Arnold fagnar sigurmarkinu. AFP/Paul Ellis

Trent Alexander-Arnold var hetjan þegar Liverpool vann magnaðan endurkomusigur á Fulham, 4:3, í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Anfield í Liverpool í dag. 

Liverpool er því komið í annað sæti deildarinnar með 31 stig, tveimur frá Arsenal á toppnum. Fulham er í 14. sæti með 15 stig. 

Eftir frekar bragðdaufar upphafsmínútur kom Trent Alexander-Arnold Liverpool yfir á 20. mínútu með glæstu marki úr aukaspyrnu sem fór í slána og inn, 1:0. 

Eftir á kom hins vegar fram að boltinn hafi farið í bakið á Bernd Leno markverði Fulham og var markið tekið af Alexander-Arnold og skráð sem sjálfsmark. 

Fulham var aðeins fimm mínútur að jafna en að verkum var Harry Wilson sem potaði boltanum milli fóta Caoimhin Kelleher eftir sendingu frá Antonee Robinson, 1:1. 

Liverpool-menn fagna sturluðu marki Trents-Alexanders-Arnolds.
Liverpool-menn fagna sturluðu marki Trents-Alexanders-Arnolds. AFP/Paul Ellis

Alexis Mac Allister kom svo Liverpool yfir á nýjan leik með sturluðu marki á 39. mínútu. Þá lét hann boltann tvisvar skoppa fyrir framan sig og hamraði honum lengst utan teigs í bláhornið fjær. Þetta var eitt af mörkum tímabilsins og Liverpool komið yfir á nýjan leik. 

Í uppbótartíma fyrri hálfleiksins jafnaði svo Kenny Tete metin fyrir Fulham þegar boltinn féll fyrir fætur hans. Kelleher hefði getað gert betur þar. 

Eftir fjörugan fyrri hálfleik fóru liðin jöfn til búningsklefa. 

Alexis Mac Allister fagnar draumamarki sínu.
Alexis Mac Allister fagnar draumamarki sínu. AFP/Paul Ellis

Í seinni hálfleik fékk Darwin Núnez tvö upplögð marktækifæri en nýtti þau illa. 

Bobby Reid kom svo Fulham óvænt yfir með góðu skallamarki á 80. mínútu leiksins eftir frábæra fyrirgjöf frá Tom Cairney, 3:2, og gestirnir voru í draumalandi. 

Bobby Reid fagnar marki sínu.
Bobby Reid fagnar marki sínu. AFP/Paul Ellis

Wataru Endo jafnaði síðan metin á 87. mínútu þegar hann smurði boltann í bláhornið eftir sendingu frá Salah. 

Það var svo Trent Alexander-Arnold sem tryggði Liverpool ótrúlegan sigur mínútu síðar þegar boltinn féll fyrir fætur hans og hann hamraði honum í netið, 4:3, og Liverpool er aftur tveimur stigum frá toppnum. 

Wataru Endo jafnaði metin fyrir Liverpool.
Wataru Endo jafnaði metin fyrir Liverpool. AFP/Paul Ellis
Liverpool 4:3 Fulham opna loka
90. mín. Harrison Reed (Fulham ) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert