City kært en Haaland sleppur

Erling Haaland tryllist við Simon Hooper í gær.
Erling Haaland tryllist við Simon Hooper í gær. AFP/Darren Staples

Enska knattspyrnusambandið hefur kært karlalið Manchester City fyrir hátterni leikmanna undir lok leiks liðsins gegn Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Leiknum lauk með jafntefli, 3:3, en hópuðust leikmenn Man. City að dómara leiksins, Simon Hooper, þegar hann flautaði brot í stað þess að leyfa leiknum að halda áfram þegar Jack Grealish var sloppinn einn í gegn undir lokin.

Fór norski markahrókurinn Erling Haaland þar fremstur í flokki, öskraði í andlitið á Hooper og hrópaði ókvæðisorð að honum. Hann mun þrátt fyrir það ekki sæta frekari refsingu.

Frá því er greint á BBC Sport.

Það þykir skjóta nokkuð skökku við þar sem Virgil van Dijk og Reece James hjá Chelsea hafa báðir verið úrskurðaðir í eins leiks bann og verið sektaðir um 100.000 pund hvor, fyrir að blóta dómurum í leikjum á tímabilinu.

Haaland hélt áfram að hrópa ókvæðisorð að Hooper eftir leik.
Haaland hélt áfram að hrópa ókvæðisorð að Hooper eftir leik. AFP/Darren Staples
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert