Ten Hag að missa klefann?

Marcus Rashford og Erik ten Hag ræða saman í leik …
Marcus Rashford og Erik ten Hag ræða saman í leik fyrr á tímabilinu. AFP/Oli Scarff

Nokkrir fjölmiðlar gera nú því skóna að Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, sé kominn langt með að missa búningsklefann hjá liðinu.

ESPN, Sky Sports og Mirror greina öll frá því að helmingur leikmanna liðsins hafi misst trúna á verkefninu undir stjórn ten Hags, sem tók við stjórnartaumunum sumarið 2022.

Í leik Man. United gegn Newcastle United á laugardagskvöld, sem tapaðist 1:0, sást greinilega þegar ten Hag og leikmaðurinn Anthony Martial rifust á meðan leiknum stóð.

Leikmenn eru sagðir óánægðir með ákafar æfingaaðferðir stjórans og leikaðferðir hans.

Sky Sports greinir þá frá því að reyndari leikmenn liðsins hafi rætt við ten Hag og kvartað undan því með hversu harðri hendi hann stýrir.

Sumir leikmanna Man. United eru þá sagðir ósáttir við hvernig komið hefur verið fram við Jadon Sancho, sem hefur ekki mátt æfa eða spila með liðinu frá því í september síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert