Liverpool vann torsóttan útisigur á nýliðunum

Wataru Endo og Luis Díaz fagna með Virgil van Dijk …
Wataru Endo og Luis Díaz fagna með Virgil van Dijk eftir að hann hafði komið Liverpool yfir í leiknum. AFP/Darren Staples

Liverpool vann vægast sagt torsóttan útisigur á nýliðum Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld, 2:0.

Fyrri hálfleiknum var algjörlega stýrt af gestunum sem voru mikið meira með boltann og réðu ferðinni nánast algjörlega. Heimamenn voru þó þéttir til baka sem varð til þess að Liverpool gekk illa að skapa sér færi.

James McAtee fékk lang besta færi heimamanna í fyrri hálfleiknum þegar hann komst einn gegn Caoimhín Kelleher í marki Liverpool eftir mistök Joe Gomez en Írinn varði virkilega vel.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 37. mínútu og voru það gestirnir sem gerðu það. Trent Alexander-Arnold átti þá góða hornspyrnu utarlega í teiginn þar sem Virgil van Dijk var á einhvern ótrúlegan hátt algjörlega aleinn og óvaldaður. Hann átti ekki í neinum vandræðum með að smella boltanum í netið með góðu skoti.

Seinni hálfleikur var svo afskaplega rólegur og gerðist fátt markvert. Gestirnir voru áfram meira með boltann en heimamenn héldu áfram að verjast virkilega vel og gefa fá færi á sér. Þegar skammt far til leiksloka færðu heimamenn sig þó framar á völlinn og settu pressu á gestina, sem skapaði nokkrar ágætis stöður en þó engin dauðafæri.

Luis Díaz með boltann í leiknum í kvöld. Jayden Bogle, …
Luis Díaz með boltann í leiknum í kvöld. Jayden Bogle, varnarmaður Sheffield United, sækir að honum. AFP/Darren Staples

Á 5. mínútu uppbótartíma gerðu gestirnir svo út um leikinn. Varamaðurinn Darwin Núnez gerði þá frábærlega þegar hann vann boltann af Jayden Bogle áður en hann lyfti honum á fjærsvæðið þar sem Dominik Szoboszlai var aleinn. Hann tók vel við boltanum áður en hann smellti honum glæsilega upp í nærhornið og innsiglaði tveggja marka sigur Liverpool.

Með sigrinum minnkar Liverpool forystu Arsenal á toppnum aftur niður í tvö stig en liðið er nú með 34 stig. Sheffield United er enn á botninum með 5 stig en ég efast ekki um að Chris Wilder taki margt jákvætt út úr þessari frammistöðu.

Sheffield United 0:2 Liverpool opna loka
90. mín. Oliver Norwood (Sheffield United) fær gult spjald Fer mjög groddaralega í Szoboszlai alveg upp við varamannabekk Liverpool.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka