Skotinn allt í öllu í stórleiknum gegn Chelsea

Scott McTominay reyndist hetja Manchester United þegar liðið tók á móti Chelsea í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester í kvöld.

Leiknum lauk með sigri United, 2:1, en McTominay skoraði bæði mörk United í leiknum.

United fer með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar í 27 stig, líkt og Tottenham en Tottenham á leik til góða á United. Chelsea er í tíunda sætinu með 19 stig.

Varði vítaspyrnu snemma leiks

Leikurinn fór fjörlega af stað og strax á 8. mínútu traðkaði Enzo Fernández á Antony innan vítateigs Chelsea og dómari leiksins, Chris Kavanagh, dæmdi vítaspyrnu, eftir VAR-athugun.

Bruno Fernandes steig á punktinn en spyrnan var arfaslök og Robert Sanchez í marki Chelsea varði hana nokkuð þægilega.

Scott McTominay kom United svo yfir strax á 19. mínútu þegar boltann barst til hans eftir hornspyrnu frá vinstri. Harry Maguire átti þá skot sem fór af varnarmönnum Chelsea og þaðan barst boltinn til McTominay sem átti þrumuskot með vinstri fæti, úr miðjum teignum, og Sanchez í marki Chelsea réð ekki við það.

Sigurmark í seinni hálfleik

Það var svo Cole Plamer sem jafnaði metin fyrir Chelsea á 45. mínútu eftir frábæran sprett en hann fékk þá boltann rétt utan teigs, keyrði í átt að teignum með þrjá varnarmenn í sér, og átti svo lúmskt skot með vinstri fæti í hægra hornið sem André Onana réð ekki við og staðan því 1:1 í hálfleik.

Scott McTominay kom United yfir í annað sinn í leiknum á 69. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Alejandro Garnacho.

Garnacho skrúfaði boltann inn á teiginn frá vinstri, beint á kollinn á McTominay sem stangaði boltann í netið af stuttu færi og reyndist það sigurmark leiksins.

Man. United 2:1 Chelsea opna loka
90. mín. Armando Broja (Chelsea) á skalla í stöng FÆRI! Broja með hörkuskalla úr þröngu færi en boltinn í stöngina!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert