Villa lagði Englandsmeistarana

Leon Bailey fagnar marki sínu í kvöld ásamt liðsfélögum.
Leon Bailey fagnar marki sínu í kvöld ásamt liðsfélögum. AFP/Adrian Dennis

Aston Villa vann frækinn sigur á Englandsmeisturum Manchester City, 1:0, þegar liðin áttust við í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í kvöld.

Þetta var 14. sigurleikur Aston Villa í röð á Villa Park en með sigrinum jafnaði liðið félagsmet frá árinu 1931.

Það var Leon Bailey sem skoraði sigurmarkið í kvöld á 74. mínútu leiksins. Með sigrinum fór Aston Villa upp fyrir Manchester í deildinni en liðið er núna í þriðja sæti með 32 stig en Manchester City er í fjórða sæti með 30 stig.

Leikmenn Aston Villa byrjuðu leikinn með látum og áttu nokkur færi á upphafsmínútum leiksins en Ederson varði allt sem á markið kom. Á 10. mínútu leiksins fékk Erling Haaland tvö góð færi fyrir Manchester City en Emiliano Martinez varði vel frá honum í bæði skiptin. Það sást eiginlega ekkert í Haaland eftir þetta í leiknum.

Eftir þessa fjörugu byrjun skiptust liðin á að sækja en heimamenn komu sér í mun hættulegri færi sem þeir náðu þó ekki að nýta sér. Í upphafi seinni hálfleik virtust meistarar síðustu þriggja ára ætla að bíta frá sér en eftir aðeins örfáar mínútur í seinni hálfleik tóku leikmenn Aston Villa öll völd á vellinum.

Aftur á móti voru heimamenn ekki að nýta sér nægilega vel þær stöður sem liðið kom sér í. Leikmenn Aston Villa náðu loksins að skora á 74. mínútu leiksins en þá fékk Leon Bailey góða sendingu á miðjum vellinum frá Youri Tielemans en Bailey brunaði upp völlinn og skildi varnarmenn Manchester City eftir og lét vaða á markið.

Skot hans fór reyndar í Ruben Dias, varnarmann Manchester City, og þaðan í netið en engu að síður afar vel gert hjá Bailey. Eftir markið voru heimamenn líklegri að skora annað mark en Manchester City að jafna metin.

Þetta var fyrsti sigur Aston Villa á liði Manchester City í 10 ár og sömuleiðis í fyrsta sinn sem Unai Emery, framkvæmdastjóri Aston Villa, nær að vinna lið Pep Guardiola á sínum stjóraferli.

Leikmenn og stuðningsmenn Aston Villa höfðu því ríka ástæðu til þess að fagna í leikslok þegar sigurinn var kominn í hús.

Aston Villa 1:0 Man. City opna loka
90. mín. Leik lokið ÞESSU ER LOKIÐ Á VILLA PARK - Aston Villa vinnur Manchester City 1:0 og heldur áfram sigurgöngu sinni á heimavelli. Aston Villa átti svo sannarlega þennan sigur skilið. Sigurmark Aston Villa skoraði Leon Bailey á 74. mínútu leiksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert