Miðjumaður United vill til Barcelona

Donny van de Beek hefur aldrei náð sér almennilega á …
Donny van de Beek hefur aldrei náð sér almennilega á strik á Englandi. AFP

Knattspyrnumaðurinn Donny van de Beek vill komast burt frá enska úrvaldeildarfélaginu Manchester United.

Van de Beek, sem er 26 ára gamall, gekk til liðs við United frá Ajax sumarið 2020 fyrir 30 milljónir punda en hann hefur aldrei náð sér almennilega á strik á Englandi.

Spænski miðillinn Sport greinir frá því að leikmaðurinn vilji komast til Barcelona og að umboðsmaður hans hafi haft samband við forráðamenn spænska liðsins með það fyrir augum að fá hann yfir til Spánar.

Börsungar eru í leit að miðjumanni eftir að Gavi sleit krossband í landsleik með Spánverjum en spænski miðjumaðurinn verður frá út tímabilið.

Van de Beek á að baki 62 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp önnur tvö til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert