Fati úr leik í þrjá mánuði

Ansu Fati með boltann í leik með Brighton gegn Manchester …
Ansu Fati með boltann í leik með Brighton gegn Manchester City. AFP/Oli Scarff

Ansu Fati, Spánverjinn ungi sem Brighton er með í láni frá Barcelona, spilar ekki með enska liðinu næstu vikur og mánuði.

Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóri Brighton, skýrði frá því í dag að Fati yrði frá keppni í eina þrjá mánuði vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Nottingham Forest 25. nóvember.

Hann tilgreindi meiðslin ekki nánar en sagði að hann þyrfti um það bil þrjá mánuði til að jafna sig, frá og með deginum sem hann meiddist.

Fati er 21 árs landsliðsmaður Spánverja og hefur skorað fjögur mörk í fjórtán leikjum með Brighton í öllum mótum á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert