Góðar fréttir fyrir Liverpool

Alisson gæti snúið aftur í lið Liverpool á morgun.
Alisson gæti snúið aftur í lið Liverpool á morgun. AFP/Paul Ellis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur greint frá því að brasilíski markvörðurinn Alisson hafi hafið æfingar að nýju með liðinu og ætti því möguleika á að geta tekið þátt í leik liðsins gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Alisson meiddist aftan á læri undir lok leiks í 1:1 jafntefli gegn Manchester City undir lok síðasta mánaðar og hefur af þeim sökum misst af síðustu tveimur deildarleikjum Liverpool.

Bataferlið hefur gengið vel og nálgast markvörðurinn knái því endurkomu.

Á fréttamannafundi í dag greindi Klopp hins vegar frá því að argentínski miðjumaðurinn Alexis Mac Allister missi að öllum líkindum af leiknum gegn Palace í hádeginu á morgun eftir að hann meiddist á hné í 2:0-sigri á Sheffield United.

Sjálfur tilkynnti Mac Allister á samfélagsmiðlum að sauma hafi þurft nokkur spor en að hann muni brátt snúa aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert