Skil að stuðningsmenn elski mig ekki

Maurico Pochettino.
Maurico Pochettino. AFP/Adrian Dennis

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, segist veita því fullan skilning að stuðningsmenn liðsins elski hann ekki.

Illa hefur gengið hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en liðið er komið í úrslitaleik enska deildabikarsins og 16-liða úrslit ensku bikarkeppninnar.

Chelsea er sem stendur í 11. sæti í deildinni og hafnaði í 12. sæti á því síðasta. Aðeins eru tæp þrjú ár síðan liðið vann Meistaradeild Evrópu og því af sem áður var.

Get ekki logið

„Ég verð að vera heiðarlegur því ég skil þetta. Þeir voru að vinna Meistaradeildina, bikarkeppnir og ensku úrvalsdeildina.

Ástæðan fyrir því að stuðningsmenn elska mig ekki eftir sex eða sjö mánuði? Við erum komnir í úrslitaleik en við erum ekki í góðri stöðu í úrvalsdeildinni. Við erum komnir áfram í bikarkeppninni.

Sem stendur finn ég fyrir virðingu stuðningsmanna, þeir virða mig. Ég hitti þá úti á götu og þeir eru indælir við mig. En ég get ekki logið,“ sagði Pochettino í samtali við Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert