Skýtur fast á Pep Guardiola

Kalvin Phillips er kominn til West Ham.
Kalvin Phillips er kominn til West Ham. AFP/Adrian Dennis

Enski knattspyrnumaðurinn Kalvin Phillips fer ekki fögrum orðum um Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City. 

Manchester City keypti Phillips sumarið 2022 frá uppeldisfélaginu Leeds þar sem Englendingurinn var fyrirliði. Var hann þá einn heitasti bitinn á markaðnum og fastamaður í enska landsliðinu. 

Síðan þá hefur lítið sem ekkert verið að frétta hjá enska miðjumanninum en hann fékk fá tækifæri með Manchester City, jafnvel er lykilmenn í hans stöðu voru fjarverandi. 

Var hann lánaður til West Ham í síðasta mánuði og hefur byrjun hans þar ekki verið upp á marga fiska, en West Ham tapaði fyrir Arsenal í gær, 6:0. 

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP/Darren Staples

Hafði mikil áhrif á sjálfstraustið

Í viðtali við The Sun sagði Phillps að lágpunktur hans hjá Manchester City hafi verið þegar að Guardiola kallaði hann of þungan eftir heimsmeistaramótið í Katar 2022. 

„Hann hafði rétt á því sem hann sagði, en hefði getað valið aðra leið til þess. Pep var pirraður að ég hafi ekki komið snemma til baka á æfingar en það var misskilningur á milli mín og félagsins,“ sagði Phillips. 

„Pep var pirraður að ég kom til baka 1,5 kílói þyngri en stefnan var. Það hafði mikil áhrif á veru mína og sjálfstraust hjá Manchester City. Fjölskyldan mín var allt annað en ánægð. 

Móður minni þótti þetta sérstaklega erfitt. Hún neitaði að koma á leiki því hana langaði ekki að horfa á leiki sem ég spilaði ekki,“ bætti Englendingurinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert