Stórkostlegur leikur Norðmannsins

Martin Ödegaard hefur farið á kostum með Arsenal undanfarið.
Martin Ödegaard hefur farið á kostum með Arsenal undanfarið. AFP/Henry Nicholls

Norðmaðurinn Martin Ödegaard átti vægast sagt frábæran leik er Arsenal valtaði yfir West Ham, 6:0, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. 

Ödegaard, sem er fyrirliði liðsins, lagði upp tvö af sex mörkum Arsenal og stýrði spilinu á miðjunni með glæsibrag. 

Eftir leik tók tölfræðisíðan OptaJoe tölfræði Norðmannsins úr leiknum fyrir. 

Er Norðmaðurinn fyrsti leikmaðurinn til að eiga yfir 100 heppnaðar sendingar, skapa að minnsta kosti fimm færi og leggja að minnsta kosti tvö mörk í sama úrvalsdeildarleik síðan að talning hófst, árið 2003. 

Arsenal er í þriðja sæti deildarinnar með 52 stig, tveimur minna en Liverpool sem er á toppnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert