Frábær útisigur hjá toppliði Liverpool

Cody Gakpo fagnar marki sínu með stuðningsmönnum Liverpool.
Cody Gakpo fagnar marki sínu með stuðningsmönnum Liverpool. AFP/Adrian Dennis

Brentford tók á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leikið var á Community-leikvanginum í Lundúnum og buðu liðin upp á frábæra skemmtun sem endaði með sigri Liverpool, 4:1.

Eftir leikinn er Liverpool á toppi deildarinnar með 57 stig, fimm stigum á undan Manchester City sem á tvo leiki til góða. Brentford situr hinsvegar í 14. sæti með 25 stig, aðeins sex stigum frá fallsæti.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur og voru liðsmenn Liverpool lengi í gang. Vitaly Janelt átti fyrsta skot leiksins á 4. mínútu en það fór vel framhjá marki gestanna.

Ivan Toney fékk frábært færi á 15. mínútu eftir góðan undirbúning Neal Maupay en skot Englendingsins lak framhjá fjærstönginni.

Aftur var Toney á ferðinni á 20. mínútu og aftur var það eftir sendingu frá Maupay sem hann komst innfyrir vörn Liverpool. Hann náði skoti að marki en Caomihín Kelleher varði auðveldlega í marki gestanna.

Diogo Jota náði góðu skoti að marki á 21. mínútu fyrir Liverpool þegar hann fékk boltann rétt fyrir utan vítateig heimamanna. Skotið virtist vera á leið í netið en Mark Flekken, markvörður Brentford, varði frábærlega í hornspyrnu.

Fyrsta mark leiksins kom á 35. mínútu þegar Darwin Nunez kom boltanum í netið eftir að Diogo Jota skallaði boltann fyrir lappirnar á honum. Nunez hafði nægan tíma til að klára færið sitt og vippaði hann boltanum frábærlega yfir Flekken í marki Brentford.

Darwin Nunez við það að skora fyrsta mark gestanna í …
Darwin Nunez við það að skora fyrsta mark gestanna í dag. AFP/Adrian Dennis

Þegar flautað var til hálfleiks var Liverpool yfir en hafði misst tvo leikmenn útaf í meiðsli en Curtis Jones og Diogo Jota fóru af velli í fyrri hálfleiknum.

Ástandið skánaði ekki þegar Darwin Nunez var tekinn af velli í hálfleik og virtist vera um enn ein meiðslin að ræða hjá gestunum.

Luis Diaz átti fyrstu tilraun síðari hálfleiks eftir að hann dansaði framhjá Christian Nörgaard og Matthias Jensen og lét vaða að marki en skot hans fór framhjá markinu.

Mohamed Salah fékk dauðafæri mínútu síðar þegar hann slapp einn í gegnum vörn gestanna eftir sendingu frá Virgil Van Dijk. Egyptinn náði að losa sig frá Reguilon en skot hans var arfaslakt og fór framhjá markinu.

Alexis Mac Allister fagnar marki sínu í dag.
Alexis Mac Allister fagnar marki sínu í dag. AFP/Adrian Dennis

Á 55. mínútu kom annað mark leiksins þegar að Alexis Mac Allister tvöfaldaði forystu gestanna. Mohamed Salah fékk þá boltann frá Ryan Gravenberch og sendi hann boltann í hlaupaleiðina hjá Mac Allister. Argentínumaðurinn gerði frábærlega og plataði Kristoffer Ajer með fyrstu snertingunni áður en hann potaði boltanum framhjá Flekken í marki heimamanna.

Þriðja mark gestanna kom á 68. mínútu. Cody Gakpo flikkaði þá boltanum innfyrir vörn heimamanna þar sem Mohamed Salah var á undan Nathan Collins í boltann. Salah fór auðveldlega framhjá Collins áður en hann kom boltanum í netið og kláraði þar með leikinn fyrir Liverpool.

Brentford sótti sér sárabótarmark á 75. mínútu þegar Yoane Wissa komst upp kantinn. Hann sendi boltann fyrir á Sergio Reguilon, Spánverjinn náði góðu skoti að marki sem Kelleher varði mjög vel í marki Liverpool. Frákastið datt hinsvegar fyrir fætur Ivan Toney sem gerði engin mistök og kom hann boltanum í netið.

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, fagnar sigri sinna manna í …
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, fagnar sigri sinna manna í dag. AFP/Adrian Dennis

Fimmta og síðasta mark leiksins kom svo á 86. mínútu þegar Cody Gakpo skoraði fínt mark fyrir Liverpool. Luis Diaz kom þá boltanum á Hollendinginn sem kláraði færi sitt vel framhjá Flekken í marki heimamanna.

Meira markvert gerðist ekki í leiknum og fögnuðu liðsmenn Liverpool frábærum fjögurra marka sigri á erfiðum útivelli.

Næsti leikur Liverpool er á heimavelli gegn Luton á miðvikudagskvöld en Brentford mætir næst Manchester City á útivelli á þriðjudag.

Brentford 1:4 Liverpool opna loka
90. mín. Kristoffer Ajer brýtur klaufalega á Luis Diaz rétt fyrir utan vítateig Brentford. Aukaspyrna á stórhættulegum stað.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert