Jafnt í stórleiknum

Leikmenn Chelsea fagna marki Raheems Sterlings í kvöld.
Leikmenn Chelsea fagna marki Raheems Sterlings í kvöld. AFP/Darren Staples

Manchester City og Chelsea skildu jöfn, 1:1, í stórleik 25. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Etihad-leikvanginum í Manchester í kvöld.

Raheem Sterling kom Chelsea yfir undir lok fyrri hálfleiks gegn sínum gömlu félögum áður en Rodri jafnaði metin fyrir Man. City sjö mínútum fyrir leikslok.

Heimamenn byrjuðu betur og strax á 2. mínútu leiksins átti Julián Álvarez gott skot eftir góða sendingu frá Erling Haaland en skot hans fór framhjá. Stuttu síðar var Djordje Petrovi, markvörður Chelsea, í smá vandræðum eftir hornspyrnu Manchester City en náði að bjarga sér með því að verja skalla frá Rodri sem kom í kjölfarið. Á 12. mínútu leiksins átti Alvarez flotta sending fyrir markið og auðvitað var Haaland mættur á teiginn en skalli hans fór rétt yfir. Eftir þessa góða byrjun Manchester City fóru gestirnir aðeins að bíta frá sér.

Nicolas Jackson fékk gott færi til að koma Chelsea yfir á 23. mínútu leiksins en hann fékk þá sendingu frá Malo Gusto en sú sending var ekki alveg nógu góð og þvi náði Jackson ekki góðu skoti á markið en Ederson varði það nokkuð örugglega en færið kom eftir mjög góða skyndisókn Chelsea. Það var einmitt úr slíkri skyndisókn sem Raheem Sterling skoraði úr á 42. mínútu en þá fékk Jackson boltann á miðjum vellinum og kom honum til baka á Cole Plamer sem setti hann upp hægri kantinn á Jackson og hann átti flotta sending fyrir markið þar sem Raheem Sterling kom á ferðinni, plataði Kyle Walker, og setti boltann smekklega í netið framhjá Ederson í marki Manchester City. Heimamenn fengu nokkur ágæt færi eftir þetta en þeir reyndu allt sem þeir gátu til að jafna metin fyrir leikhlé en það tókst þeim ekki og því fóru gestirnir með 1:0 forystu í hálfleikinn.

Leikmenn Manchester City komu ansi sprækir til leiks í seinni hálfleik og strax á 47. mínútu átti Kevin De Bruyne skot rétt yfir beint úr aukaspyrnu og á 51. mínútu fékk Erling Haaland gott færi eftir sendingu frá Phil Foden en skot hans fór langt framhjá. Það munaði samt ansi litlu að Chelsea kæmist í 2:0 á 56. mínútu leiksins en þá varði Ederson tvívegis virkilega vel frá Raheem Sterling og Ben Chilwell.

Það voru nánast allir á Etihad Stadium fullvissir um það að Erling Haaland væri að skora jöfnunarmark Manchester City á 78. mínútu leiksins þegar hann fékk frábæra sending frá Kevin De Bruyne en skalli Haaland var hátt yfir. Það verður að segjast að Haaland var ansi ólíkur sjálfur sér í leiknum í dag. Það var hreinlega ekkert að ganga upp hjá honum. Það var aftur á móti Rodri sem náði að jafna metin fyrir Manchester City á 83. mínútu en þá fékk hann boltann eftir að Kyle Walker hafði skotið í varnarmann Chelsea og þaðan barst boltinn til Rodri sem nelgdi boltanum í netið. Heimamenn voru ansi líklegir til að skora sigurmarkið á lokamínútum leiksins og pressuðu lið Chelsea svakalega en inn vildi boltinn ekki og gestirnir voru himinlifandi þegar flautað var til leiksloka.

Manchester City er því áfram í þriðja sæti deildarinnar með 53 stig en Liverpool er á toppnum með 57 stig og Arsenal í öðru sætinu með 55 stig. Manchester City á þó einn leik til góða á Liverpool og Arsenal. Chelsea er í tíunda sæti deildarinnar eftir þetta jafntefli með 35 stig en Brighton og Wolves eru sömuleiðis með 35 stig.

Man. City 1:1 Chelsea opna loka
90. mín. Man. City fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert