Varnarmaður Liverpool hló að spurningu um Mbappé

Ibrahima Konáte.
Ibrahima Konáte. AFP/Paul Ellis

Knattspyrnumaðurinn Ibrahima Konáte, varnarmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, var spurður út í hugsanleg félagaskipti Kylians Mbappé eftir sigur liðsins gegn Brentford í úrvalsdeildinni í Lundúnum í dag.

Konáte, sem er 24 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá RB Leipzig sumarið 2021 og á að baki 13 landsleiki fyrir Frakkland.

Hann og Kylian Mbappé, sóknarmaður París SG, eru góðir félagar en Mbappé tilkynnti það á dögunum að hann væri á förum frá Parísarliðinu eftir sjö ár í herbúðum félagsins.

Orðaður við Liverpool undanfarin ár

„Heldurðu virkilega að hann sé að koma hingað,“ sagði Konáte við fjölmiðlamann frá Canal+ þegar hann var spurður hvort hann taldi líkur á því að Mbappé væri á leiðinni á Anfield.

Franski landsliðsfyrirliðinn hefur meðal annars verið orðaður við Liverpool undanfarin ár, sem og stórlið Real Madrid á Spáni.

„Ég held að allir viti hvert hann sé að fara,“ bætti Konáte svo við og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert