„Ég gæti verið að deyja hérna“

Tom Lockyer er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Luton Town.
Tom Lockyer er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Luton Town. AFP/Adrian Dennis

Tom Lockyer, fyrirliði Luton Town, hefur tjáð sig nánar um það þegar hann fór í hjartastopp í leik gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni þann 16. desember síðastliðinn.

Læknateymi beggja liða höfðu hraðar hendur, hlupu inn á völlinn og fengu hjarta Lockyers til að slá að nýju tæpum þremur mínútum eftir að hann hneig niður.

„Ég er ótrúlega heppinn að vera á lífi. Við förum eftir læknateyminu og sérfræðingum en ef það er möguleiki á því að ég geti spilað aftur, og ég mun aldrei fara gegn ráðleggingum sérfræðinga, myndi ég elska það.

Það er of snemmt að segja til um það. Ég á eftir að fara í fjölda skoðana og ganga frá fleiri hlutum en ég myndi ekki útiloka það,“ sagði Lockyer við Sky Sports fyrir leik Luton og Manchester United í deildinni í gær.

Hann hafði áður hnigið niður í leik á síðasta ári, gerði það í úrslitaleik um sæti í úrvalsdeildinni gegn Coventry City í maí. Í kjölfarið gekkst Lockyer undir hjartaaðgerð og fékk grænt ljós á að spila aftur síðar um sumarið.

Meiri örvænting

Hann sagðist strax hafa vitað að tilfellið í desember hafi verið alvarlegra.

„Þetta var bara venjulegur dagur og það er það sem veldur manni mestum áhyggjum. Ég var að hlaupa að miðjunni og fann fyrir smá svima.

Ég man að ég hugsaði að það yrði í lagi með mig eftir smá stund en svo var það ekki þannig. Ég vaknaði og sjúkraflutningamennirnir og fleiri voru úti um allt. Þetta gerðist líka í maí en ég vissi strax að þetta væri öðruvísi.“

„Síðast hafði ég vaknað af eins konar draumi en núna vaknaði ég út frá einhverju tómi. Það var strax meiri örvænting af hendi sjúkraflutningamanna, sjúkraþjálfara og liðslækna.

Ég var svolítið ringlaður, gat ekki talað né hreyft mig. Ég var bara að reyna að átta mig á því hvað væri í gangi,“ hélt Lockyer áfram.

Væri annars ekki hér

„Á meðan þessu stóð man ég að ég hugsaði: „Ég gæti verið að deyja hérna.“ Það er ansi súrrealískt að hugsa það og geta ekki hreyft sig eða svarað.

Eftir það sem gerðist í maí er ég með lítið tæki undir bringunni. Ég var úti í tvær mínútur og 40 sekúndur. Ég þurfti hjartastuðtæki til þess að koma til baka.

Ég vil þakka sjúkraflutningamönnunum og liðslæknunum sem hjálpuðu mér því án þeirra væri ég ekki hér,“ bætti miðvörðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert