Onana kom Everton úr fallsætinu

Amadou Onana fagnar eftir að hafa jafnað metin fyrir Everton …
Amadou Onana fagnar eftir að hafa jafnað metin fyrir Everton seint í leiknum. AFP/Paul Ellis

Everton komst í kvöld úr fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með því að gera jafntefli við Crystal Palace á heimavelli, 1:1.

Everton er þá komið með 20 stig, eins og Luton, en fer upp fyrir nýliðana og í sautjánda sætið á betri markatölu.

Palace fer upp fyrir Nottingham Forest og í 15. sætið með 25 stig og er því áfram á hættusvæðinu.

Palace náði forystunni á 66. mínútu þegar Jordan Ayew fékk boltann frá Jean Mateta og skaut bylmingsskoti frá vítateig í vinstra hornið.

Amadou Onana jafnaði fyrir Everton á 84. mínútu þegar hann reis langhæst allra á markteignum eftir hornspyrnu Dwights McNeils frá hægri og skoraði með hörkuskalla, 1:1.

Oliver Glasner, nýr knattspyrnustjóri Crystal Palace, fylgdist með liðinu úr stúkunni í kvöld en hann var í dag ráðinn í stað Roys Hodgsons.

Jordan Ayew kemur Crystal Palace yfir með firnaföstu skoti.
Jordan Ayew kemur Crystal Palace yfir með firnaföstu skoti. AFP/Paul Ellis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert