Rekinn eftir tólf leiki og sló félagsmetið

Michael Beale gefur Jobe Bellingham fyrirmæli í grannaslag Sunderland og …
Michael Beale gefur Jobe Bellingham fyrirmæli í grannaslag Sunderland og Newcastle í ensku bikarkeppninni í janúar. Sunderland tapaði 3:0. AFP/Paul Ellis

Enska félagið Sunderland hefur sagt upp knattspyrnustjóranum Michael Beale eftir að hann hafði aðeins stjórnað liðinu í 12 leikjum í ensku B-deildinni.

Beale er þar með sá stjóri sem hefur fengið stystan tíma hjá Sunderland en Paolo di Canio var rekinn frá félaginu eftir aðeins 13 leiki árið 2013.

Beale, sem er 43 ára gamall, var ráðinn til Sunderland í desember og samið var við hann til hálfs þriðja árs.

Félagið tapaði sex leikjum undir hans stjórn og forráðamenn Sunderland sættu sig ekki við það en liðið féll úr umspilssæti B-deildarinnar niður í tíunda sætið á meðan.

Beale hefur þar með verið rekinn úr starfi tvisvar á þessu tímabili. Honum var sagt upp hjá Rangers í Skotlandi í október eftir tíu mánuði og 43 leiki með félaginu.

Aðstoðarstjórinn Mike Dodds mun stýra liðinu til bráðabirgða út þetta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert