Haaland hetja City í mikilvægum sigri

Haaland og liðsfélagar hans fagna marki Norðmannsins í kvöld.
Haaland og liðsfélagar hans fagna marki Norðmannsins í kvöld. AFP/Paul Ellis

Manchester City og Brentford mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram í Manchester og fóru heimamenn með mikilvægan sigur af hólmi, 1:0.

Eftir leik er City í 2. sæti deildarinnar með 56 stig, stigi á eftir toppliði Liverpool. Brentford situr hins vegar enn í 14. sæti deildarinnar, aðeins fimm stigum frá fallsæti.

Leikurinn fór fjörlega af stað og fljótlega var ljóst í hvað stefndi en liðsmenn Manchester City herjuðu á gestina við hvert tækifæri.

Það voru hins vegar gestirnir sem fengu fyrsta alvöru marktækifærið í þessum leik en á 16. mínútu slapp Frank Onyeka einn í gegnum vörn Englandsmeistaranna. Onyeka rakti boltann að marki City og náði skoti að marki en það var arfaslakt og varði Ederson það nokkuð þægilega.

Brentford fékk aukaspyrnu á hættulegum stað á 19. mínútu og átti Ivan Toney hörkuskot sem fór rétt yfir þverslána.

Kyle Walker og Sergio Reguilon í baráttunni í kvöld.
Kyle Walker og Sergio Reguilon í baráttunni í kvöld. AFP/Paul Ellis

Fyrsta dauðafæri heimamanna kom á 34. mínútu. Rodri átti þá sendingu á Kyle Walker sem skallaði boltann fyrir markið. Þar var Bernardo Silva einn og óvaldaður á markteig gestanna og náði hann skalla að marki en hann fór fram hjá markinu.

Aðeins mínútu síðar átti Manuel Akanji hörkuskot utan af velli en Mark Flekken, markvörður Brentford, varði frábærlega.

Á 36. mínútu fékk Rúben Dias dauðafæri á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá Rodri en skalli Portúgalans var varinn af Flekken.

Þetta voru atkvæðamiklar mínútur því að á 37. mínútu bjargaði Ben Mee á marklínu eftir að Oscar Bobb hafði náð góðu skoti að marki gestanna.

Norðmaðurinn Oscar Bobb byrjaði sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu.
Norðmaðurinn Oscar Bobb byrjaði sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu. AFP/Paul Ellis

Ekki náðu liðin að skapa sér mörg færi frá þessu færi hjá Bobb alveg þar til á 71. mínútu þegar að sigurmark leiksins leit dagsins ljós. Bernardo Silva átti þá sendingu á Erling Haaland. Norðmaðurinn tók boltann með sér fram á við og hafði heppnina með sér því Kristoffer Ajer, varnarmaður Brentford, rann á vellinum og var því Haaland kominn einn í gegnum vörnina. Norski landsliðsmaðurinn gerði engin mistök og kláraði færið sitt einkar vel og kom meisturunum yfir.

City stjórnaði síðustu mínútum í leiknum af sinni alkunnu snilld og komu tímar þar sem liðsmenn Brentford náðu ekki að snerta boltann í 5-6 mínútur.

Liðsmenn Brentford reyndu hvað þeir gátu en áttu ekki erindi sem erfiði og endaði leikurinn með sigri Manchester City.

Næsti leikur City er útileikur gegn Bournemouth en Brentford fer næst í heimsókn til West Ham.

Man. City 1:0 Brentford opna loka
90. mín. Phil Foden (Man. City) á skot sem er varið Foden kemst í gegn og ætlar framhjá Flekken en Flekken nær að verja frá honum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert