Bakvörður United frá út tímabilið?

Luke Shaw.
Luke Shaw. AFP/Ben Stansall

Knattspyrnumaðurinn Luke Shaw, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, gæti misst af restinni af tímabilinu vegna meiðsla.

Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Shaw, sem er 28 ára gamall, fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks í leik Luton og Manchester United í 25. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi.

Shaw tognaði aftan í læri í leiknum en hann var að glíma við sömu meiðsli í upphafi tímabilsins og var frá keppni í þrjá mánuði vegna þeirra.

Hann gæti nú hafa spilað sinn síðasta leik á tímabilinu og þá er óvíst um þátttöku hans með enska landsliðinu í lokakeppni Evrópumótsins í sumar sem fram fer í Þýskalandi.

Shaw hefur verið í lykilhlutverki hjá United undanfarin ár en alls á hann að baki 275 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur lagt upp 29 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert