Tekur ákvörðun eftir tímabilið

David Moyes.
David Moyes. AFP/Darren Staples

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham United, segist vera með nýtt samningstilboð frá forráðamönnum félagsins en að hann hyggist ekki taka ákvörðun um framtíð sína fyrr en í sumar.

Núgildandi samningur Moyes rennur út í sumar en einhverjir stuðningsmenn Hamranna eru farnir að kalla eftir því að hann verði rekinn tafarlaust vegna slæms gengis að undanförnu.

„Ég hef átt mjög góðar samræður við eigendurna, David Sullivan og Karren Brady. Það er samningur á borðinu fyrir mig og það er ég sem ákveð að ég vilji bíða til loka tímabilsins,“ sagði Moyes á fréttamannafundi í dag.

West Ham er án sigurs í síðustu átta leikjum í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert