Af hverju var fyrra mark van Dijks dæmt af?

Virgil van Dijk skoraði tvö í dag en bara annað …
Virgil van Dijk skoraði tvö í dag en bara annað þeirra var gilt. AFP

Ensku knattspyrnufélögin Liverpool og Chelsea mættust í dag í úrslitaleik enska deildabikarsins og fór leikurinn 1:0 fyrir Liverpool eftir framlengdan leik.

Varnarmaður Liverpool, Virgil van Dijk skoraði eina mark leiksins en fyrra mark hans í leiknum var dæmt af vegna rangstæðu miðjumannsins Wataru Endo.

Margir hafa velt því fyrir sér á samfélagsmiðlum hvers vegna markið hafi verið dæmt af þar sem Endo var ekki nálægt Van Dijk í aukaspyrnunni.

Hvað gerðist?

Van Dijk stóð við hlið Ben Chilwell í aukaspyrnunni frá Robertson en það einvígi hallaði ávallt á Chilwell þar sem mikill hæðarmunur er á fyrirliðunum tveimur.

Chilwell gat lítið gert er van Dijk fór af stað og að lokum skallaði Van Dijk boltann í netið.

Í VAR herberginu sást hinsvegar að Chilwell var ekki sá sem átti að dekka van Dijk heldur var það hlutverk Levi Colwill en Colwill komst ekki að Van Dijk því Wataru Endo hljóp í veg fyrir hann, úr rangstæðunni, og hafði því áhrif á leikinn og markið dæmt af.

Viðbrögð á samfélagsmiðlum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert