Ótrúlegasti titill sem ég hef unnið

Jürgen Klopp fagnar sínum sjöunda titli hjá Liverpool.
Jürgen Klopp fagnar sínum sjöunda titli hjá Liverpool. AFP

Liverpool bar sigur úr býtum gegn Chelsea í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í dag en Jürgen Klopp stillti fram vængbrotnu byrjunarliði þar sem margir af lykilmönnum hans eru frá vegna meiðsla.

Liverpool vann leikinn 1:0 með marki frá Virgil van Dijk í uppbótartíma en fjórir leikmenn úr unglingaliði félagsins luku leiknum fyrir Liverpool.

Þeir Mohamed Salah, Darwin Nunez, Dominik Szoboszlai, Trent Alexander-Arnold, Alisson, Diogo Jota og Curtis Jones eru allir frá vegna meiðsla.

Liverpool varð fyrir því óláni að missa Ryan Gravenberch út af vegna meiðsla snemma í fyrri hálfleiknum en hann yfirgaf völlinn í sjúkrabörum. 

„Á þeim 20 árum sem ég hef verið að þjálfa er þetta ótrúlegasti titill sem ég hef unnið, en þetta er æðislegt. Ég er stoltur af öllum sem tóku þátt hérna í dag, ég er stoltur af aðdáendum okkar sem ýttu okkur áfram, ég er stoltur af starfsteyminu sem vinnur hjá félaginu sem gerði okkur kleift að vinna í dag og stoltur af strákunum fyrir að ná sigri í dag. Ég er líka stoltur af því starfi sem er í gangi í unglingaliðum Liverpool,“ sagði Jürgen Klopp eftir leik. Þetta var sjöundi titill Jürgen Klopp hjá Liverpool en hann yfirgefur félagið eftir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert