Ein af hetjum Liverpool á hækjum

Wataru Endo á fleygiferð í úrslitaleiknum í gær.
Wataru Endo á fleygiferð í úrslitaleiknum í gær. AFP/Adrian Dennis

Enn heltist úr lestinni hjá karlaliði Liverpool í knattspyrnu. Ryan Gravenberch meiddist illa á ökkla í fyrri hálfleik gegn Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins í gær og sást í spelku og á hækjum eftir leik, en var ekki sá eini.

Japanski varnartengiliðurinn Wataru Endo átti frábæran leik í liði Liverpool og lék allar 120 mínúturnar í framlengdum úrslitaleiknum.

James Pearce, íþróttablaðamaður hjá The Athletic, birti mynd af Endo eftir leik þar sem vinstri fótur Japanans er í spelku og hann á hækjum.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði á fréttamannafundi  að hann hefði aldrei séð leikmann vera jafn stífan í líkamanum og Endo eftir leikinn í gær.

Á eftir að koma í ljós hversu eða hvort meiðsli hans séu alvarleg. Þegar eru tólf leikmenn Liverpool á meiðslalistanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert