Enskur landsliðsmaður fallinn frá

Stan Bowles var 75 ára gamall.
Stan Bowles var 75 ára gamall. Ljósmynd/@QPR

Englendingurinn Stan Bowles, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er látinn 75 ára að aldri eftir langa baráttu við alzheimer’s sjúkdóminn.

Bowles, sem var eldsnöggur og leikinn sóknarmaður, hóf ferilinn hjá Manchester City en gerði garðinn frægan hjá Queens Park Rangers, þar sem hann lék á árunum 1972 til 1979 og skoraði 70 mörk í 255 deildarleikjum.

Lék hann á þeim tíma, frá 1974 til 1977, fimm landsleiki fyrir England og skoraði í þeim eitt mark.

Bowles var litríkur karakter sem kom sér gjarna í vandræði utan vallar og stundum innan vallar.

Glímdi hann til að mynda við áfengis- og veðmálafíkn og þótti oft ekki æfa af nægilegum dug.

Hvað sem því líður var Bowles í gífurlegu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum QPR enda einn af lykilmönnum liðs sem er talið það besta í sögu félagsins og hafnaði til að mynda í öðru sæti í efstu deild tímabilið 1975-76.

Árið 2014 var hann kjörinn besti leikmaður í sögu QPR af stuðningsmönnum þess. Árið 2022 var stúka á Loftus Road, leikvangi félagsins, nefnd eftir honum.

Á ferlinum lék Bowles einnig með Nottingham Forest, Brentford, Carlisle United, Crewe Alexandra og Bury.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka