Everton fær fjögur stig til baka

Everton getur fagnað fjórum stigum sem bætast á stigatöflu liðsins …
Everton getur fagnað fjórum stigum sem bætast á stigatöflu liðsins í dag. AFP/Paul Ellis

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu staðfesti í dag að stigarefsingin sem Everton fékk fyrr í vetur hefði verið endurskoðuð og lækkuð.

Þá voru tíu stig dregin af liðinu í deildinni vegna  brota á fjárhagsreglum. Ensku félögin mega sýna taprekstur upp á 105 milljónir punda á þriggja ára tímabili en rannsókn sýndi að Everton hefði tapað 124,5 milljónum punda á þremur árum, til tímabilsins 2021-22.

Í yfirlýsingu frá deildinni segir: „Everton áfrýjaði refsingunni sem félagið fékk og lagði fram níu atriði, sem sneru öll að refsingunni sjálfri en ekki að brotinu sem slíku, enda  viðurkenndi félagið þau. Áfrýjunarnefndin tók til greina tvö af þessum níu atriðum og hefur þar með breytt stigarefsingunni úr tíu stigum í sex."

Þar með er Everton með 25 stig í staðinn fyrir 21 og klifrar upp úr 17. sætinu, upp fyrir Nottingham Forest og Brentford, og í fimmtánda sæti deildarinnar. Liðið er þar með fimm stigum fyrir ofan Luton sem er í fallsæti, ekki einu stigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert