Liverpool í sambandi við Alonso

Xabi Alonso hefur náð frábærum árangri með Leverkusen.
Xabi Alonso hefur náð frábærum árangri með Leverkusen. AFP/Ina Fassbender

Liverpool hefur þegar sett sig í samband við Xabi Alonso, knattspyrnustjóra Bayer Leverkusen, og látið þýska félagið vita af áhuga sínum á að fá hann til sín í sumar.

Þetta segir þýski fjölmiðillinn Bild í dag.

Þar segir jafnframt að forráðamenn Leverkusen hafi hvergi látið sér bregða. Þar sem Alonso sé fyrrverandi leikmaður Liverpool hefði það komið þeim á óvart ef Liverpool hefði ekki haft samband.

Alonso lék 210 leiki fyrir Liverpool á árunum 2004 til 2009. Hann tók við Leverkusen sumarið 2022 og liðið er nú með átta stiga forskot á hið annars ósigrandi lið Bayern München á toppi þýsku 1. deildarinnar.

Spánverjinn er talinn vera efstur á óskalista Liverpool til að taka við starfi knattspyrnustjóra félagsins að loknu þessu keppnistímabili þegar Jürgen Klopp lætur af störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert