Rashford rýfur þögnina

Marcus Rashford er ósáttur við fréttaflutning fjölmiðla.
Marcus Rashford er ósáttur við fréttaflutning fjölmiðla. AFP/Paul Ellis

Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford tjáði sig í dag opinberlega í fyrsta skipti síðan hann stalst á djammið í Belfast í síðasta mánuði og tilkynnti sig í kjölfarið veikan hjá Manchester United morguninn eftir.

Hann var einnig gagnrýndur fyrir að fara út á lífið eftir 0:3-tap United gegn grönnunum í Manchester City í október á síðasta ári. Hann ritaði pistil á The Players‘ Tribune-vefsíðuna í dag.

„Ég er ekki vanur því að svara því sem sagt er um mig. Í 99 prósentum tilvika get ég hunsað það sem er að gerast í kringum mig, en í þetta skiptið var farið yfir strikið. Ég vil að fólk skilji mína hlið,“ byrjaði Rashford pistilinn.

Honum finnst hann fá verri gagnrýni en margir aðrir knattspyrnumenn:

„Það er ekki talað um að ég sé 26 ára strákur á djamminu. Það þarf að tala um hvað bílinn minn kostar, hvað ég fæ í laun, eða eitthvað um húðflúrin mín. Svo er skrifað um fjölskylduna mína.

Einhverra hluta vegna virðist það hafa pirrað fólk að ég hafi barist fyrir fríum máltíðum í skólum í kórónuveirufaraldrinum. Þau hafa beðið eftir mistökum frá mér til að sýna að það sé eitthvað að. Ég er ekki fullkominn og ég geri mín mistök. Ég verð að gera betur,“ skrifaði Rashford meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert