Vandræðin aukast hjá Brentford

Ben Mee spilar ekki meira á tímabilinu.
Ben Mee spilar ekki meira á tímabilinu. AFP/Adrian Dennis

Enska knattspyrnuliðið Brentford er komið í umtalsverð vandræði eftir að ljóst varð að varnarmaðurinn reyndi Ben Mee myndi ekki spila meira með því á þessu tímabili.

Mee brákaðist á ökkla, er á leið í uppskurð og þar með er enn eitt skarðið höggvið í vörn Lundúnaliðsins. Hver varnarmaðurinn á fætur öðrum hefur helst úr lestinni og útlit fyrir að Thomas Frank knattspyrnustjóri þurfi að tefla fram óreyndum leikmönnum á lokaspretti tímabilsins.

Brentford má illa við þessum skakkaföllum en liðið hefur sigið niður í sextánda sæti deildarinnar og er fimm stigum fyrir ofan Luton sem er í fallsæti. Brentford hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í deildinni.

Félagið keypti í lok janúar landsliðsmarkvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson af Elfsborg í Svíþjóð en hann hefur ekki komið inn í liðshópinn á leikdegi í úrvalsdeildinni, enn sem komið er. Hollendingurinn Mark Flekken ver mark liðsins og albanski landsliðsmarkvörðurinn Thomas Strakosha er varamarkvörður.

Brentford tekur á móti Chelsea í grannaslag Vestur-Lundúnaliðanna á Community-leikvanginum klukkan 15 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert