Allt út af fyllerísbrandara

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, og Louis Dunford. Arteta á stóran …
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, og Louis Dunford. Arteta á stóran þátt í því að gera The Angel að slagsöng Arsenal. X.com

Lagið The Angel (North London Forever) eftir tónlistarmanninn Louis Dunford varð óvænt og skyndilega slagsöngur enska knattspyrnufélagsins Arsenal fyrir tæpum tveimur árum. Það er þó ekki samið sérstaklega um Arsenal, heldur er það einfaldlega ástaróður til Islington-hverfisins í heild og andans sem þar ríkir.

„Lagið er samið um heimabæ minn,“ sagði Dunford við tímaritið Music Republic þegar lagið kom út. „Allir sem búið hafa í Norður-Lundúnum eins lengi og ég munu bera kennsl á fólkið og staðina sem ég get um í textanum. Sumir eru hér enn, aðrir ekki. Þetta er það af lögunum mínum sem er í mestu uppáhaldi hjá vinum mínum og fjölskyldu. Hver maður upplifir borgina á sinn hátt. Ég gerði mitt besta til að fanga mína.“

Mögnuð atburðarás

Fátt sagði af laginu fyrsta kastið en síðan fór mögnuð atburðarás af stað. Eftir að Dunford flutti lagið á ónefndum bar í Islington tveimur mánuðum síðar settist kunningi hans, sem var búinn að fá sér einn eða tvo svellkalda, hjá honum og sagði að menn yrðu að leika The Angel (North London Forever) á Emirates.

„Þannig að, í algjöru gríni, þá taggaði ég Arsenal á Twitter og sagði: Spilið The Angel. Það er það sem fólkið vill. Ég var bara að hugsa um þá fáu sem fylgdu mér á Twitter og að þeim kynni að þykja þetta fyndið,“ hefur sparkmiðillinn 90 Min eftir Dunford.

Stuðningsmenn Arsenal kyrja The Angel (North London Forever) hástöfum fyrir …
Stuðningsmenn Arsenal kyrja The Angel (North London Forever) hástöfum fyrir sigur Arsenal á Newcastle United, KR Englands, um síðustu helgi. AFP/Justin Tallis


Honum brá því í brún þegar hann vaknaði daginn eftir og sá að búið var að endurtísta skilaboðunum yfir 1.000 sinnum. „Ég skildi ekki neitt í neinu.“

Og enginn stöðvaði þann þunga nið, endurtístin urðu 2.000, 10.000, 15.000 og loks yfir 30.000. „Ég hugsaði bara með mér: Hvur rækallinn, og allt út af einum fyllerísbrandara!“

Þarna voru menn farnir að velta fyrir sér tengingunni við Arsenal og Dunford hefur aldrei verið með nein þykjustulæti í þeim efnum. „Eigi ég að vera ærlegur þá hafði ég Arsenal alls ekki í huga þegar ég samdi lagið. Minnst er á Highbury og leikvang í fyrsta versinu en það er vegna þess að þetta er hluti af landslaginu mínu,“ hefur 90 Min eftir Dunford.

„Arsenal er nefnilega snar þáttur í uppvexti manns hér um slóðir. En þegar fólk þakkar mér fyrir að hafa samið lagið fyrir Arsenal þá verð ég að viðurkenna að það var algjörlega óvart. Hefði ég átt að setjast niður og semja lag sem ég héldi að myndi heilla stuðningsmenn Arsenal þá hefði mig ábyggilega rekið í vörðurnar.“

Nánar er fjallað um The Angel og Louis Dunford í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka