Jafnt í Lundúnaslagnum

Kurt Zouma í þann mund að jafna metin í kvöld.
Kurt Zouma í þann mund að jafna metin í kvöld. AFP/Ben Stansall

West Ham United og Tottenham Hotspur skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í 31. umferð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Tottenham missteig sig þar með í baráttunni um fjórða og síðasta Meistaradeildarsætið og er áfram í fimmta sæti, nú með 57 stig, tveimur stigum á eftir Aston Villa.

West Ham er áfram í sjöunda sæti, nú með 45 stig.

Gestirnir úr Tottenham náðu forystunni snemma leiks, á fimmtu mínútu, þegar Brennan Johnson skoraði af örstuttu færi eftir góðan undirbúningi Timos Werners.

Kurt Zouma jafnaði metin fyrir Hamrana með góðum skalla eftir hornspyrnu Jarrods Bowens frá hægri og þar við sat.

Burnley og Úlfarnir skildu jöfn

Fyrr í kvöld gerðu Burnley og Wolverhampton Wanderers sömuleiðis jafntefli, 1:1.

Burnley er áfram í 19. sæti, fallsæti, með 19 stig. Úlfarnir eru í tíunda sæti með 42 stig.

Jacob Bruun Larsen kom heimamönnum í Burnley í forystu á 37. mínútu með laglegri afgreiðslu á lofti eftir góða sendingu Dara O’Shea.

Rayan Ait-Nouri jafnaði hins vegar metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks með góðum skalla eftir fyrirgjöf Pablo Sarabia úr aukaspyrnu.

Jóhann Berg Guðmundsson var allan tímann á varamannabekknum hjá Burnley.

Kluivert hetja Bournemouth

Þá vann Bournemouth góðan heimasigur á Crystal Palace, 1:0.

Með sigrinum fór Bournemouth upp í 11. sæti þar sem liðið er með 41 stig. Palace er í 14. sæti með 30 stig.

Sigurmark Bournemouth skoraði Justin Kluivert ellefu mínútum fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka